Árið 1528 kom út í Feneyjum bók eftir Benedetto Bordone sem nefnist Libro di Benedetto Bordone nel qual si ragiona de tutte l'Isole del mondo con li lor nomi antichi & moderni. Í síðari útgáfum var nafni hennar breytt í Isolario eða eyjalýsing. Í bókinni eru 110 tréskurðarkort, flest af einstökum eyjum vítt og breitt um heiminn. Hún er merkur áfangi í íslenskri kortasögu því að í henni birtist í fyrsta skipti svo vitað sé sérkort af Íslandi í prentuðu riti. Í texta sem fylgir með segir m. a. að Ísland sé eyja norðvestur í hafi. Á kortinu eru vegalengdir mestar frá austri til vesturs og landið verður mjórra eftir því sem vestar dregur. Kortið hefur engin örnefni en á ströndinni eru sjö byggingar sem eiga eflaust að tákna borgir. Þessi Íslandsgerð á líklega uppruna sinn að rekja til kortanna sem fylgdu Landafræði Ptolemeusar. Það kort sem sýnt er hér er úr endurprentun bókarinnar frá 1547.