Nieuwe Kaart van Ysland

Zorgdrager var hollenskur skipstjóri sem kom til Íslands árið 1699. Töluvert síðar ritaði hann bók um veiðar í Norðurhöfum og löndin þar í grennd, Bloeyende opkomst der aloude en hedendaagsche Groenlandsche Visschery, þar sem hann segir talsvert frá Íslandi. Bókinni fylgir sérkort af landinu og er lögun þess sótt til sjókorta fremur en almennra landabréfa. Þegar dregur inn til landsins er farið eftir hinum fornu Íslandskortum af gerð Guðbrands biskups. Þangað eru sótt flest af hinum rúmlega 120 örnefnum sem á kortinu eru.
Bók Zorgdragers var gefin út aftur á frummálinu 1727 og í þýskri þýðingu 1723 og 1750. En auk þess er frásögn Zorgdragers uppistaðan í ýmsum síðari ritum sem fjalla um sama efni, m. a. í Nieuwe beschryving der walvisvangst en haringvisscherij (1791) og bók Bernard de Reste, Histoire des peches ... (1800) Öllum þessum bókum fylgir uppdrátturinn af Íslandi, annaðhvort prentaður eftir lagfærðu myndamóti eða í nákvæmri eftirmynd en með heiti á þýsku og frönsku í útgáfum á því máli. Með frönsku útgáfunni er líklega lokið beinum áhrifum frá korti Guðbrands biskups Þorlákssonar. Og með því hverfur líka sú gerð sjókorta sem rakti þangað í öndverðu upphaf sitt.

Nánar

Höfundur: Cornelis Gisbert Zorgdrager
Útgáfuland: Óþekkt land
Útgáfuár: 1720

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1720
Stærð: 17,3×27,6 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1791
Stærð: 17,6×27,9 sm
Útgáfa 3
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1791
Stærð: 17,6×27,9 sm
Útgáfa 4
Útgáfustaður: París
Útgáfuár: 1800
Stærð: 15,8×27,2 sm