Kortasafn Abrahams Orteliusar, Theatrum orbis terrarum, var dýr bók í stóru broti og frekar óþjál í meðförum. Þegar Ortelius lést árið 1598 komst útgáfurétturinn á safni hans í hendur Johannesar Vrients. Hann lét prenta smækkaða gerð þess undir nafninu Epitome Theatri Orteliani sem að Philip Galle hafði í rauninni byrjað að gefa út áður. Ýmsir aðrir lögðu hönd á plóg eins og Michel Coignet. Epitome kom út á ýmsum tungumálum, t.d. latínu (1601, 1609, 1612), frönsku (1602) og ensku (1603). Yfirleitt voru kortin þau sömu eða svipuð.
Uppdrátturinn af Íslandi er ekkert annað en smækkuð útgáfa af korti Orteliusar úr Theatrum. Ýmsu hefur orðið að fórna við þessa breytingu á stærð, eins og t. d. mörgum örnefnum og öllum fyrirbærunum á hafinu.