Carta particolare dell' Isole di Islandia e Frislandia, con l'Isolette di Fare

Á árunum 1646-1647 kom út í Flórens mikið safn sjókorta, Arcane del mare, eða leyndardómur hafsins. Höfundur bókarinnar var þó ekki ítalskur heldur enskur hefðarmaður, Robert Dudley, launsonur jarlsins af Leicester, ástmanns Elísabetar drottningar. Dudley hafði sest að í hálfgildis útlegð á Ítalíu. Hann var lærdóms- og farmaður í senn og hafði undir höndum ýmis frumgögn um landafundi.
Landið er gert að hollenskri fyrirmynd eins og stendur á kortinu sjálfu. Undirstaðan er kort Jorisar Carolusar og helstu einkenni þess koma öll til skila. Þangað eru flest örnefnin sótt og nafnmyndum svipar mjög saman. Auðsýnt er þó að Dudley hefur haft við höndina Íslandskort Orteliusar eða eitthvert annað kort gert eftir því. Dudley var það mikil árátta að auka kort sín sem flestum nöfnum sem áttu stundum ærið hæpna stoð í veruleikanum. Ef hann rekst einhvers staðar á annað heiti á öðru korti, grípur hann það fegins hendi og bætir því á kort sitt.
Sjókortasafn Dudleys var einstakt fyrirbæri sem ekki markaði nein veruleg spor. Svo ríkt var veldi Hollendinga enn á sviði kortagerðar að öðrum var torsótt að ryðja sér til rúms og ná fótfestu.

 

Nánar

Höfundur: Robert Dudley
Útgáfuland: Ítalía
Útgáfuár: 1646-1647

Útgáfustaður: Flórens
Útgáfuár: 1646
Stærð: 48×76 sm