Tabula geogr. in qua admirande navigationis cursus et recursus designatur : Polus Arcticus

Einn af nafnkunnustu sæförum Hollendinga um þessar mundir var Willem Barents. Honum er jafnan eignað kort af Norðurvegum sem gefið var út eftir lát hans undir lok 16. aldar. Frumprentun kortsins er í latnesku útgáfunni af ferðasögu Johannesar Linschotens. Ekki er vitað hvort kortið er í raun og veru eftir Barents og hefur það verið eignað ýmsum öðrum.
Hnattstaða Íslands á kortinu er svipuð og hjá Orteliusi, enda virðist höfundurinn hafa haft kort hans að undirstöðu, þó varla að beinu handsali. Þegar kemur á þær slóðir hefur höfundurinn líklega fremur farið eftir Íslandskorti Lucasar Janszoonar Waghenaers. Örnefnin virðast ekki valin af staðkynnum eða þekkingu á landinu og býsna tilviljunarkennt hvað tekið er með og hverju sleppt. Allt er þetta með svipuðum hætti og tíðast var um Ísland á þessum árum.
Kortið eða eftirmyndir þess voru síðan birtar í ýmsum ritum næstu árin en oftast með einhverjum breytingum, t. a. m. hjá J. I. Pontanus í Rerum et urbis Amstelodamensium historia, Amsterdam 1611. Eftirmynd Pontanusar er dálítið minnkuð en að öðru leyti allnákvæm.

Nánar

Höfundur: Johannes Isaksen Pontanus
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1611

Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1611
Stærð: 26,8×35,7 sm