L'Islande

Pierre Duval var tengdasonur og lærisveinn Nicolas Sanson, eins af frægustu kortagerðarmönnum Frakka. Eftir hann liggur þó nokkuð af landabréfasöfnum en einnig gerði hann kort sem voru birt sérstaklega í ýmsum bókum, ferðasögum og öðrum ritum af landfræðilegum toga. Þetta kort birtist fyrst í einu slíku riti, Relation de l'Islande eftir Isaac de La Peyrère sem kom út 1663. Bókin fjallar um Ísland eins og nafnið bendir til og er flest í henni sótt til Arngríms lærða Jónssonar. Ekki er vitað hvenær kortið er gert en það er líklega dregið beint upp eftir uppdrætti Jorisar Carolusar en ekki Íslandskorti Nicolas Sanson sem virðist því ekki vera tilbúið á þessum tíma. Duval hefur fært staðarnöfn til franskra hátta og breytt nafni annars biskupsstólsins til betri vegar, úr Halar í Hola. Tvö ný örnefni koma nú í fyrsta skipti fyrir á korti en það eru Papei vestan Hvammsfjarðar og Sneland meðfram Lagarfljóti. Vitneskju um þau má sennilega rekja til Arngríms lærða, sem getur bæði Snælands og papa.
Íslandskortið birtist síðan með latnesku heiti, Insula Islandia, í Geographia Universalis das ist allgemeine Erd-Beschreibung (1681) eftir Duval og Johann Christoph Beer. Það var líka eitt af fjölmörgum kortum sem fylgdu með ferðasögusafni úr Norðurvegi, Recueil de Voiages au Nord (1715).

Nánar

Höfundur: Pierre Duval
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1663-1715

Útgáfa 1
Útgáfustaður: París
Útgáfuár: 1663
Stærð: 11×13 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1681
Stærð: 10,5×13 sm
Útgáfa 3
Útgáfustaður: Nürnberg
Útgáfuár: 1681
Stærð: 10,5×13 sm
Útgáfa 4
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1715
Stærð: 11×13 sm
Útgáfa 5
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1715
Stærð: 11×13 sm
Útgáfa 6
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1715
Stærð: 11×13 sm