Kortið kemur úr English Atlas eftir Moses Pitt en hann tók ásamt öðrum við kortaútgáfu Johannesar Janssoniusar eftir lát hans. Það er hið kunna kort Jorisar Carolusar, búið nýju nafni og nýrri umgerð. Skip og annað skrímslið sem Janssonius og Willem Janszoon Blaeu hafa fyrir sunnan landið í útgáfum sínum á korti Carolusar, hafa orðið að víkja fyrir titilfeldi. Landið sjálft er prentað óbreytt og virðist ekki hafa verið hróflað við myndamóti Janssoniusar hvað það snertir. Undir titlinum standa við hlið Moses Pitt nöfn útgefendanna Johannesar van Waesbergen, tengdasonar Janssoniusar, og Stephen Swart.