Það var á árunum í kringum 1590 að Matthias Quad, tréskeri og eirstungumaður í Köln, hóf undirbúning að nýju safni landabréfa. Fyrsti hluti þess kom út á latnesku árið 1592 og er eitt kortanna yfirlitskort af Evrópu. Það er í rauninni ekki annað en minnkuð gerð hins yngra korts Orteliusar af álfunni (frá 1587). Ísland er að mestu óbreytt frá fyrirmyndinni en örnefni nokkru færri. Árið 1600 gaf Quad út aukna útgáfu kortasafns síns og ber bókin að þessu sinni þýskt heiti, Geographisch Handtbuch, og eru allir lesmálstextar á því máli.