Á árunum 1919 og 1920 hófust dönsku landmælingamennirnir aftur handa þar sem herforingjaráðskortunum sleppti og var þá mælt um austanverða Húnavatnssýslu og Skagafjörð. Ekki þótti þá lengur ástæða til að hafa kortin í jafn stórum mælikvarða og áður. Þau voru minnkuð niður í 1:100.000 og talið að á þeim mætti koma fyrir öllu nauðsynlegu efni. Árið 1921 var mælingum hætt vegna fjárskorts og hófust þær ekki að nýju fyrr en 1930. Þá var sú breyting á orðin að Landmælingastofnun Dana (Geodætisk Institut) hafði tekið við verkinu úr höndum hersins. Á árunum 1930-1939 var verkinu lokið, ef frá er talinn hluti á austanverðum Vatnajökli. Eftir var að prenta kort eftir síðustu áfanga mælinganna og endurskoðun eldri korta eftir því sem föng leyfðu. Samfellt kort af öllu landinu á 87 blöðum í mælikvarða 1:100.000 var svo prentað á árunum 1921-1944.