Á síðasta áratug 19. aldar varð dönskum yfirvöldum ljóst að þau kort sem til voru af Íslandi stæðust ekki þær kröfur sem gera þyrfti í samfélagi þess tíma. Bestu kort af Íslandi sem buðust voru í stórum dráttum byggð á strandmælingum danska sjóhersins sem fram fóru á árunum 1801-1818 annars vegar og hins vegar á kortum Björns Gunnlaugssonar sem byggð voru á fyrrnefndum strandmælingum og eigin mælingum Björns á árunum 1831-1843.
Á fjárlögum 1899 voru veittar 5000 krónur og skyldi hefja nýjar þríhyrninga- og strandmælingar á Reykjanesi. Árið 1900 var gefin út í Danmörku tilskipun um að sendur skyldi leiðangur til Íslands til að mæla hér grunnlínu og hnattstöðu. Síðan var ætlunin að mæla þríhyrninganet út frá nýju grunnlínunni. Hingað voru sendir danskir liðsforingjar og sumarið 1900 var unnin ýmis undirbúningsvinna. Árið 1902 höfðu fjárveitingar verið auknar svo að rétt þótti að hefjast handa. Byrjað var á Hornafirði og mælt vestur ströndina og um lágsveitir Suðurlands en uppsveitum og hálendi frestað. Verkinu var svo haldið áfram tvö næstu árin en féll niður 1905 vegna fjárskorts og annarra anna hjá Landmælingadeild danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske Afdeling) er tókst verkið á hendur. Eftir eins árs bið var þráðurinn tekinn upp að nýju enda bættist nú við fjárstyrkur úr ríkissjóði Dana. Á árunum 1906-1914 var unnið öll sumur, nema 1909, þegar ekkert var aðhafst. Var þá lokið byggðamælingum sunnanlands og mælt um Vesturland, norður og austur um Húnaflóa. Árangurinn var 117 kortblöð af þriðjungi landsins, suður- og vesturhluta, í mælikvarða 1:50.000 (auk nokkurra sérkorta af afmörkuðum svæðum). Þau eru gjarnan nefnd herforingjaráðskortin í höfuðið á þeim sem stóðu fyrir gerð þeirra.