Vandermaelen var belgískur landfræðingur. Á árunum 1825-27 gaf hann út Atlas universell sem var safn landakorta í sex bindum. Í þeim var þess freistað í fyrsta sinn að gera landabréf í stóru sniði af allri jörðinni í samfelldum mælikvarða.
Strandlengja Íslands er gerð eftir yfirlitskorti Pouls de Løvenørns sem hann byggði á strandmælingunum hér við land í byrjun 19. aldar. Inn til landsins er stuðst við kort af gerð Jóns Eiríkssonar. Flest sýsluskil eru merkt inn á kortið, þó er þeim sleppt á nokkrum stöðum. Mun vera fyrsta steinprentaða kortið af Íslandi.