Ísland kemur fyrir á fjölmörgum sjókortum gerðum í Hollandi á 17. og 18. öld. Lögun landsins er með svipuðu sniði á flestum kortunum. Hún á rætur sínar að rekja til Guðbrands Þorlákssonar en er þó töluvert öðruvísi en á kortum af sama stofni.
Þetta kort er lítið breytt frá korti eftir Lootsmans-feðga úr De Lichtende Columne, ofte Zee-Spiegel. Goos hafði keypt myndamótin að Zeespiegel og hélt útgáfunni áfram. Örnefni eru um þrjátíu talsins og flest sótt til Jorisar Carolusar. Þegar kemur að Vestfjörðum sést að kortagerðarmennirnir hafa farið vel út af sporinu. Ísafjarðardjúp er allt of breitt og Vestfirðir eru í þann veginn að klofna í tvo mikla skaga eins og síðar varð raunin á öðrum sjókortum af Íslandi og hafinu í kring.