Islandia

Gerhard Mercator var einn frægasti kortagerðarmaður sinnar tíðar. Ef hann er borinn saman við samtímamann sinn, Abraham Ortelius, má segja að hann hafi fremur tekið mið af staðreyndum á meðan Ortelius hafði mestan huga við það að kort hans gengju í augu kaupenda. Ísland kemur fyrir á Evrópukorti hans frá 1554 og heimskorti frá 1569. Á þeim er landið af þeirri fornu gerð sem á uppruna sinn að rekja til Olaus Magnus.
Árið 1595 kom út kortasafn eftir hann undir nafninu Atlas, sive cosmographicæ meditationes de fabrica mvndi et fabricati figvra. Í kortabók þessari er að finna kort af Íslandi greinilega byggt á Íslandsgerð Guðbrands Þorlákssonar biskups. Ekki er vitað eftir hvaða leiðum kort biskupsins, eða eftirmyndir þess, barst Mercator í hendur. Ortelius og Mercator voru vinir en Mercator virðist ekki taka Íslandskort Orteliusar, sem kom út fimm árum fyrr, beint upp, til þess ber of mikið á milli kortanna. Hins vegar virðist augljóst að þeir hafi báðir notað sama eða svipað forrit. Vitað er að Mercator var í sambandi við danska stjórnmála- og lærdómsmanninn Henrik Rantzau en hann hafði verið honum hjálplegur við öflun korta af Norðurlöndunum. Í þeim bréfum á milli þeirra sem varðveist hafa er í rauninni hvergi minnst á Ísland en ekki er ólíklegt að Rantzau hafi útvegað Mercator eintak af Íslandsgerð Guðbrands. Kunningsskapur Rantzau og Anders Vedel eykur líkurnar á því.
Áður hefur verið minnst á að talsverður munur er á kortum Orteliusar og Mercators. Hnattstaða er að vísu svipuð en landið lendir aðeins norðar en hjá Orteliusi og því fjarri sanni. Lengd landsins frá austri til vesturs styttist um nær sex gráður en samt er það ennþá of langt ef miðað er við breiddina. Samanburður beggja gerða, Orteliusar og Mercators, virðist benda til þess að annmarkarnir eigi að verulegu leyti rót sína að rekja til frumkorts Guðbrands biskups. Þó að strandlínur Mercators séu of kantaðar og beinar og boglína Austfjarða komist ekki til skila þá er landið þó að mörgu leyti betur gert en hjá Orteliusi. Það er allt samanþjappaðra og ekki eins sundurtætt, firðir og skagar eru minna áberandi, fljótin ekki jafn mikilfengleg og eldgangur Heklu hóflegri. Miklu munar að ófreskjurnar í hafinu eru horfnar, allar nema ein, og hafísinn, rekaviðurinn og ísbirnirnir líka. Kortið verður þannig traustara og einfaldara að allri gerð en að sama skapi ekki jafn skrautlegt. Þetta gæti bent til þess að kort Mercators standi nær frumgerðinni að þessu leyti.
Örnefni eru fleiri hjá Mercator en Orteliusi eða nálægt 290. Þegar kemur að framsetningu þeirra virðist hann hverfa meira frá frumkortinu. Þingvöllur verður t. d. Finguollur hjá Orteliusi en Bingnottr hjá Mercator. Sumsstaðar hefur verið gripið til þess ráðs að setja styttingu nafns skammt frá réttari mynd þess: Hualfiord (Hvalfjörður) og Hual og Bittkfiord (Bitrufjörður) og Bittk. Ekki er vitað hvort Mercator eða einhverjir milligöngumenn eiga sök á þessu. Nokkrar lesmálsgreinar eru á kortinu, fyrir neðan Mývatn stendur t. d. Hier Ikin natsell sunnatzt (þ. e. Hér skín náttsól sunnast). Ekki þarf að efa að þessi frásögn hafi í öndverðu komið frá höfundinum sjálfum. Neðst í vinstra horninu sést að mælikvarði er í þýskum mílum en mílan mun hafa verið nálægt 7,5 km.
Aftan á kortinu, eða á fyrstu síðu sé það brotið saman, er stutt og frekar rýr lýsing á landinu. Síðar þegar útgáfa kortasafnsins komst í hendur Jodocusar Hondiusar var frásögn þessi mjög aukin. Margt í textanum er sótt til Orteliusar en annars er hann uppsuða úr verkum ýmissa höfunda, þ. á m. Brevis commentarivs eftir Arngrím lærða.
Kortasafn Mercators kom út að honum látnum og það kom því í hlut annarra að halda útgáfunni áfram. Árið 1604 keypti Jodocus Hondius eldri myndamótin og frá hendi hans og fjölskyldu hans rak nú hver útgáfan aðra á hinum ýmsu tungumálum. Þær fyrstu voru allar á latnesku eða frönsku en síðan bættust við hollenskar, þýskar og enskar gerðir. Þetta jók mjög hróður bókarinnar en alls mun Íslandskort Mercators hafa verið prentað í 20 útgáfum kortasafnsins. Árið 1630 var það tekið út og kort Jorisar Carolusar sett í staðinn. Kortasafn Mercators var bók í stóru broti og ekki handhæg í notkun. Hondius brást við þessu með því að gefa hana út í minna broti undir nafninu Atlas minor 1607. Fordæmi voru fyrir slíkum smækkuðum útgáfum, það sama hafði verið gert við kortabók Orteliusar og fleiri bækur. Í litla brotinu er kortið stórlega minnkað og nöfnum fækkað. Atlas minor kom út í 23 útgáfum á árunum 1607-1676.
Íslandskort Mercators hafði minni áhrif á síðari kortagerðarmenn en kort Orteliusar og geldur hann þess eflaust að vera seinna á ferðinni.

Nánar

Höfundur: Gerhard Mercator
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1595-1630

Útgáfa 1
Tungumál: Latína
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 2
Tungumál: Latína
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 3
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 4
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 5
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 6
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 7
Tungumál: Latína
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 8
Tungumál: Latína
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm
Útgáfa 9
Tungumál: Latína
Útgáfuár: 1595
Stærð: 28×43,5 sm