Í byrjun 18. aldar gaf Pieter van der Aa út mikið safn ferðasagna víða að um heim, þ. á m. frásögn Dithmars Blefkens af ferð hans til Íslands árið 1563, Scheps-Togt na Ysland en Groenland. Ferðasögu Blefkens fylgir kort af Íslandi eftir van der Aa.
Íslandskortið er heldur óhrjálegt. Nafnmyndir örnefna benda til þess að farið sé eftir Orteliusi en líklega ekki frumkortinu sjálfu heldur einhverri eftirmynd því ýmislegt hefur skolast á milli. T. d. hefur Snæfellsjökull (Sneventjokkel M) verið settur inn á Norðurland. Þó að landið virðist samkvæmt þessu vera af hollenskri gerð hafa verið gerðar á því ýmsar breytingar sem hníga í átt til eldri franskra Íslandskorta.