Uppdráttr Íslands

Þó að strandmælingarnar hefðu verið merkur áfangi var enn langt í land að komið væri viðunandi kort af landinu í heild, byggðum þess og óbyggðum. Strandkortin nægðu farmönnum en fyrir landsmenn komu þau að litlu gagni hvort sem litið var til almennrar þekkingar á landinu sjálfu eða til annarra nota. Eftir að strandmælingunum lauk varð ekki vart neinna tilburða til þess að hrinda verkinu lengra áleiðis.
Nú vildi svo vel til að til var Íslendingur er lokið hafði háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann hét Björn Gunnlaugsson, kennari við latínuskólann á Bessastöðum. Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.
Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga í mælingaleiðöngrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.
Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af landinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar. Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd stærra kortsins með færri nöfnum. Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.
Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðöngrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum. Kortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.
Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.

Nánar

Höfundur: Björn Gunnlaugsson/Olaf Nikolas Olsen
Útgáfuland: Ísland
Útgáfuár: 1844-1848

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn , Reykjavík
Útgáfuár: 1844
Stærð: 43,7×55,5 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Reykjavík , Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1845
Stærð: 43,7×55,5 sm