Voxende Kaart over den nordlige Kyst af Jisland fra Skaga Fiord til Kap Langanæs og Östkysten derfra need til Mulehavn

Það hafði löngum verið versluninni nokkurt óhagræði að engin sæmileg sjókort voru til af ströndum Íslands né innsiglingum á hafnir þess. Til þess að bæta úr því hafði danski skipstjórinn Hans Erik Minor verið sendur til landsins árið 1776 til þess að mæla strandir og hafnir þess. Minor lést stuttu eftir að hann byrjaði á verkinu og hafði þá lokið við að mæla svæðið frá Reykjanesi til Snæfellsness. Sama ár og Minor hóf mælingar sínar hafði danski sjóliðsforinginn J. P. Wleugel mælt hluta af Austfjörðum. Árið 1788 voru þau kort er Minor hafði náð að ljúka við gefin út að undirlagi Poul de Løvenørn, forstöðumanns Sjómælingastofnunarinnar dönsku, með lagfæringum og breytingum hans.
Með útgáfu á kortum Minors var lokið drjúgum áfanga og einmitt af þeim slóðum þar sem var mest umferð siglinga. En þó að við bættust kort Wleugels var enn langt í land að lokið yrði við að mæla og kortleggja allar strendur landsins. Svo virtist sem áhugi stjórnvalda hefði dofnað með afnámi einokunarverslunarinnar. Á þessum tíma kemur Poul de Løvenørn aftur við sögu og hleypir málinu af stað. Hann var hafður með í ráðum er rentukammerið tók saman rækilega ályktun um málið og sendi konungi árið 1800. Í henni er lagt til að strandmælingarnar verði hafnar að nýju við Ísland og jafnframt bent á að sjókort þeirra Minors og Wleugels séu ekki nægilega nákvæm. Með mælingum fáist yfirlit sem auðveldi að gera viðeigandi ráðstafanir um tilhögun verslunarinnar auk þess sem þær skipti miklu máli fyrir allan hag landsmanna. Í framhaldi af þessari ályktun var verkið falið norsku liðsforingjunum Ole Mentzen Aanum og Ole Ohlsen og skyldi kostnaður að hluta til greiddur úr kollektusjóði en í honum voru peningar sem safnast erlendis til hjálpar nauðstöddu fólki eftir Skaftárelda. Þeim félögum sóttist verkið seint og kom Aanum lítið við sögu þess. Árið 1803 fékk Ohlsen liðstyrk með komu Hans Jørgen Wetlesen og Hans Frisak til landsins. Á árunum 1805-6 hættu Ohlsen og Wetlesen og Michael Smith og Hans Jacob Scheel komu í þeirra stað. Það kom síðan í hlut Frisak og Scheel að vinna mestan hluta verksins. Þegar þeir héldu á brott árið 1814 höfðu þeir þríhyrningamælt alla ströndina en látið hina nákvæmari strandmælingu sitja á hakanum. Árið 1815 voru þeir Moritz Ludvig Born lautinant og Arent Aschlund landmælingamaður sendir til Íslands til þess að ljúka verkinu sem þeir gerðu 1815-1818. Mælingarnar höfðu þá staðið í 18 ár. Strandkortin voru síðan gefin út á sex blöðum á árunum 1818-1826 á vegum Løvenørns með hjálp Scheels. Kortinu af Faxaflóa var sleppt, líklega vegna sparnaðar, og átti áfram að nota hið forna kort Minors frá 1788. Þetta var óheppilegt vegna þess að hér var um fjölförnustu siglingaleið landsins að ræða. Mælikvarði er ekki tilfærður á kortunum en hann mun vera hér um bil 1:250.000. Hnattlengdir eru markaðar eftir hádegisbaugunum um Greenwich, París og Kaupmannahöfn. Yfirlitskort fylgir með og er í mælikvarðanum 1:1.000.000. Sum kortin eru skreytt með smámyndum af íslenskri náttúru og mannlífi. Auk sjókortanna sjálfra tók Løvenørn saman þrjú hefti af strandlýsingu eða sjóleiðabók, í framhaldi af sams konar riti sem hann gaf út 1788 með kortum Minors.
Með þessum mælingum var lokið merkum áfanga í könnun landsins og strandlínur þess markaðar í fyrsta sinn nokkurn veginn rétt. Kortin sýna helstu fjöll og ár við ströndina en þegar dró inn til landsins varð ennþá að fara eftir aldargömlum uppdráttum. Það var ekki fyrr en rúmum tveim áratugum síðar að fyllt var upp í eyðuna með kortum Björns Gunnlaugssonar.

Nánar

Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1821

Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1821
Stærð: 59×122 sm