Tabula Islandiæ

Sá maður sem hvað mest kom við sögu hollenskra Íslandskorta, þeirra er runnin voru frá Guðbrandi biskupi Þorlákssyni, var Joris Carolus. Kort hans varð fyrirmynd flestra Íslandskorta í rúm 120 ár og ekkert hinna eldri Íslandskorta var birt jafnoft né fór jafnvíða eða átti sér lengri sögu sem fyrirmynd annarra kortagerðarmanna.
Carolus hafði tekið þátt í leiðangrum um Norðurhöf og árið 1625 hafði hann viðkomu á Íslandi. Eitthvað mun hann hafa kynnst Jóni lærða Guðmundssyni sem kallar hann „Mastur Juris Tréfót“ en Carolus mun hafa misst annan fótinn í umsátri um Ostende. Afrakstur þessara ferða um norðurslóðir birti hann síðar í safni sjókorta sem komu út 1634.
Nokkrar líkur benda til þess að hann hafi sótt fyrirmynd sína til Evrópukorts Jodocusar Hondiusar yngra frá eftir 1613 eða að þessi tvö kort séu greinar af sama stofni. Á korti Hondiusar koma fyrst fyrir Gunnbjarnareyjar svokallaðar (I. Gouberman) og liggja þær úti fyrir Ísafjarðardjúpi. Þessar eyjar finnast ekki á fyrstu gerðum af Íslandskorti Guðbrands biskups og virðist Hondius því hafa vikið frá fyrirmyndinni. Líklegt er að Carolus hafi tekið eyjarnar og ýmislegt annað sem rekja má til Íslandskorts Mercators upp eftir Hondiusi. Kort Carolusar finnst fyrst í kortasyrpu Jodocusar Hondiusar yngra frá lokum 3. áratugar 17. aldar. Það er hins vegar þekktast úr útgáfum á kortabókum þeirra Willem Janszoon Blaeu og Johannesar Janssoniusar. Á vegum Blaeu birtist það fyrst í kortasafni hans, Atlantis appendix, árið 1630. Eftir lát Hondiusar komust myndamót hans í hendur Blaeus og lét hann nema nafn hans brott og láta sitt í staðinn. Kortið birtist síðan óbreytt í öllum útgáfum á bók Blaeus. Kort Carolusar er, eins og áður sagði, einnig til í útgáfu Johannesar Janssoniusar, þeirri fyrstu frá 1630. Heiti Blaeus sem útgefanda er að sjálfsögðu horfið hjá Janssoniusi og borðinn þar sem það var letrað á stendur auður. Á kortum þeirra Blaeus og Janssoniusar er ofurlítill munur.
Á Íslandskorti Carolusar verður þess lítt vart að hann hafi komið til Íslands og haft þar tal af mönnum. Áhrifa gætir frá báðum gerðum Guðbrandskortsins. Strandlínum landsins svipar fremur til Orteliusar en þegar kemur að vali og staðsetningu örnefna fylgir Carolus Mercator-kortinu. Þó lítið sé um nýjungar á korti Carolusar er það þó spor í rétta átt. Mestu munar að landið er styttra frá austri til vesturs og að því leyti nærri lagi. En mikilvægi kortsins felst ekki í nýjungagirni þess heldur því hversu langlíft það varð og hve áhrifa þess gætti víða.

Nánar

Höfundur: Joris Carolus/Willem Janszoon Blaeu
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1630-1672

Útgáfa 1
Tungumál: Latína
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1630
Stærð: 38×49,5 sm
Útgáfa 2
Tungumál: Spænska
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1630
Stærð: 38×49,5 sm
Útgáfa 3
Tungumál: Hollenska
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1630
Stærð: 38×49,5 sm
Útgáfa 4
Tungumál: Þýska
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1630
Stærð: 38×49,5 sm
Útgáfa 5
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1630
Stærð: 38×49,5 sm
Útgáfa 6
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1630
Stærð: 38×49,5 sm
Útgáfa 7
Tungumál: Hollenska
Útgáfustaður: Amsterdam
Útgáfuár: 1630
Stærð: 38×49,5 sm