L'Europe

Pierre Duval var tengdasonur og lærisveinn Nicolas Sanson, eins af frægustu kortagerðarmönnum Frakka. Eftir hann liggur þó nokkuð af landabréfasöfnum en einnig gerði hann kort sem voru birt sérstaklega í ýmsum bókum, ferðasögum og öðrum ritum af landfræðilegum toga.
Kortið sýnir norðanvert Atlantshaf og löndin austanvert við það. Það er einn hluti af fjórum af Evrópukorti sem Duval lét gera. Ísland er að þessu sinni töluvert frábrugðið kortinu sem fylgir frásögn La Peyréres. Það er allmiklu fjær fyrirmyndinni, Carolusar-kortinu, og meir sveigt í áttina að kortum Sansons. Hlutföllin milli breiddar og lengdar landsins hafa skekkst og landið er orðið hér um bil helmingi lengra en svarar breiddinni. Strandlengju og fjallaþyrpingum, sem á eldra kortinu eru sett að hætti Jorisar Carolusar og af nokkrum staðkynnum Guðbrands biskups, hefur nú verið komið fyrir af miklu handahófi.

Nánar

Höfundur: Pierre Duval
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1686

Útgáfustaður: París
Útgáfuár: 1686
Stærð: 39,5×50,5 sm