Ebenezer Henderson var skoskur guðfræðingur og trúboði sem árin 1814-15 ferðaðist um landið á vegum Biblíufélagsins breska. Hann ritaði gagnmerka bók um ferðir sínar, land og þjóð. Bókinni fylgir kort af Íslandi, gert að fyrirsögn höfundarins af feðgunum Daniel og William Home Lizars. Undirstaðan eru kort af Knoff-gerð, sérstaklega þau sem Jón Eiríksson átti hlut að. Helsta nýmælið á kortinu er að búið er að kippa norðanverðum Vestfjörðum suður fyrir heimskautsbaug. Annars er það í svo litlum mælikvarða að lítið af athugunum Hendersons kemst til skila.