Carta da navegar de Nicolo et Antonio Zeni furono in tramontana lano M.CCC.LXXX

Zeno-kortið, eins og það er oftast nefnt, kom fyrst fyrir sjónir manna í Feneyjum árið 1558 sem hluti höfundarlausrar ferðasögu. Bókin var síðar eignuð Nicolo Zeno (1515-1565) enda var hann í beinan legg afkomandi Antonio Zeno þess er bókin segir frá og greinilegt er á frásögninni allri að höfundur og farmenn eru sömu ættar. Sagan segir m. a. frá för bræðra, Antonio og Nicolo Zeni, um norðanvert Atlantshaf og af viðkomu þeirra á Frislanda, Íslandi og Grænlandi og á hún að vera byggð á bréfum úr fórum þeirra. Samkvæmt frásögn Zenos er kortið eftirmynd af fornu sjókorti úr eigu fjölskyldunnar. Nú þykir hins vegar sannað að bæði bók og kort séu falsrit og sýni því á engan hátt landfræðiþekkingu 14. aldar. Aðalheimild Zenos að kortinu eru ekki ein heldur margar og eru þær helstu Norðurlandakort Olaus Magnus, Caerte van Oostlant eftir Cornelis Anthoniszoon og gömul kort af Norðurlöndum af stofni Claudiusar Clavusar með talsverðu ívafi frá suðrænum sjókortum 15. og 16. aldar. Fyrir Nicolo Zeno hefur sennilega vakað að auka hróður ættmenna sinna með því að láta að því liggja að þeir hefðu fundið Ameríku fyrstir manna en neðst í vinstra horni kortsins sést móta fyrir tveimur löndum (Estotiland og Drogeo) sem gætu átt að tákna austurströnd Norður-Ameríku. Þegar litið er á Íslandshluta kortsins kemur bersýnilega í ljós að fyrirmyndin hefur verið sótt til Olaus Magnus. Hvergi er þó markað fyrir fjöllum, fljótum né öðrum landsháttum og allar myndir eru horfnar. Hafísflotar Olausar eru orðnir að sjö eyjum og meira en helmingurinn af örnefnunum er sóttur til Norðurlandakorts Claudiusar Clavusar frá 15. öld en afgangurinn til Carta marina.
Þrátt fyrir vafasaman uppruna Zeno-kortsins gætti áhrifa þess lengi og næstu 40 árin átti það eftir að koma við sögu flestra landabréfa sem gerð voru af Íslandi.
Hér eru sýndar tvær eftirmyndir af kortinu, annars vegar úr Sulle antiche mappe idro-geografiche lavorate in Venezia (1818) og hins vegar úr Nouvelles annales des voyages et des sciences géographiques (1836). Báðar eru með nýrra kort af svæðinu í einu horninu.

Nánar

Höfundur: Nicolo Zeno
Útgáfuland: Ítalía
Útgáfuár: 1818-1836

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Feneyjar
Útgáfuár: 1818
Stærð: 27×37 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: París
Útgáfuár: 1836
Stærð: 27×37 sm