Delineatio Gronlandiæ Jonæ Gudmundi Islandi

Undir lok 16. aldar og á þeirri 17. gerðu nokkrir Íslendingar kort af norðanverðu Atlantshafi og löndunum í kring. Þeir freistuðu þess að samræma fornar íslenskar frásagnir um landaskipan á þessum slóðum við kort þau er þá voru í mestu gengi eða menn höfðu við höndina. Kortin voru í það smáum mælikvarða að erfitt var að gera Íslandi viðhlítandi skil enda var gerð þess í rauninni aukaatriði. Fyrir kortagerðarmönnunum vakti að gera grein fyrir siglingum Íslendinga vestur um haf til Grænlands og Ameríku. Gerð þeirra flestra stóð sennilega í sambandi við fyrirætlanir Danakonunga um að ná að nýju tangarhaldi á Grænlandi. Kort þessi eru í rauninni frekar hluti af kortasögu Grænlands en Íslands.
Af öllum kortunum eru til nokkrar mismunandi eftirmyndir en tvö þeirra eru ekki lengur til í frumgerð. Kort Jóns Guðmundssonar lærða er glatað en nokkrar töluvert mismunandi eftirmyndir eru varðveittar, þessi er úr Gronlandia antiqva eftir Þormóð Torfason. Ekki er vitað hvenær Jón gerði kort sitt en giskað hefur verið á árin í kringum 1650. Það nær yfir svipað svæði og kort þeirra Sigurðar Stefánssonar og Guðbrands Þorlákssonar og eins og á þeim skipar Grænland stærstan sess. Á þessari eftirmynd er Ísland af gerð Guðbrands biskups en ekki er vitað hvort það var þannig á frumkortinu. Landaskipan Jóns er mjög óskipuleg og ekki bætir úr skák að hann hrúgar saman ýmsum bábiljum og hindurvitnum sem hann hefur úr ýmsum fornum heimildum og lygisögum.

Nánar

Höfundur: Jón Guðmundsson
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1706

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1706
Stærð: 17×17,5 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1706
Stærð: 17×17,5 sm