Woxende kaart over en deel af den westlige kyst af Island fra Fugle Skiærene til Stikkelsholm

Eftir að landmælingunum 1721-1734, á vegum þeirra Magnúsar Arasonar og Thomasar Knoff, lauk virtist sem dönsk stjórnvöld hefðu um tíma misst áhugann á kortagerð af Íslandi.
Það hafði löngum verið versluninni nokkurt óhagræði að engin sæmileg sjókort voru til af ströndum Íslands né innsiglingum á hafnir þess. Árið 1773 hafði konungur tekið við Íslandsversluninni og átti eftir að reka hana, á meðan einokunin hélt velli, til 1787. Hann hóf brátt undirbúning að útgerð fiskiskipa hér við land í meira mæli en áður hafði tíðkast. Ekki er ósennilegt að þetta og leiðangrar Frakka til rannsókna og sjómælinga á norðanverðu Atlantshafi hafi ýtt undir að Danir hæfust handa um gerð strandkorta af Íslandi. Málið dróst á langinn til 1776 er reyndur skipstjóri í þjónustu verslunarinnar, Hans Erik Minor, var sendur til landsins til að annast verkið. Verkefni hans var að mæla strandir og hafnir Íslands, aðgæta líkleg fiskimið og gera áreiðanleg sjókort. Minor drukknaði í Hafnarfjarðarhöfn 1778 og hafði þá lokið við mælingu Reykjaness til Snæfellsness. Hann gerði heildarkort af öllu svæðinu auk sérkorta í smærri mælikvarða af afmörkuðum hlutum þess. Minor var skipstjóri en ekki kortagerðar- eða landmælingamaður og hefur það eflaust gert honum verkið erfitt. En þrátt fyrir að kort hans gætu verið betur unnin voru þau fyrstu raunverulegu sjókortin í nútíma skilningi er gerð voru af hluta íslensku strandarinnar.
Við dauða Minors enduðu kort hans í vörslu stjórnarnefndar Íslandsverslunarinnar og virtist sem ekkert lægi á að gefa þau út. Þegar Danir komu á fót Sjómælingastofnun (Det kongelige danske Søkort-Arkiv) árið 1784 voru þau flutt þangað. Forstöðumaður stofnunarinnar frá byrjun og lengi síðan var Poul de Løvenørn. Þegar kort Minors komust í hendur hans fór hann strax að huga að útgáfu þeirra. Hann sá fljótt að kortunum væri talsvert áfátt og þau þyrftu lagfæringa við. Hann endurtók nokkrar af athugunum Minors, dró kort hans upp að nýju og bætti ýmsu við þau. Árið 1788 komu kortin út með endurbótum Løvenørns. Þau eru fjögur að tölu, eitt er yfirlitskort af öllu svæðinu sem Minor mældi en hin þrjú eru af meginhluta Faxaflóasvæðisins í minni mælikvarða. Þau sýna ekki hvernig umhorfs er inn til landsins enda var þeim eingöngu ætlað að vera strandkort með dýptartölum og grynningum til að vísa leiðina að landi. Á kortunum eru líka nokkrar landkenningarmyndir eða strandsýni farmönnum til leiðbeiningar við landtöku og siglingar á hafnir.

Nánar

Höfundur: Hans Erik Minor
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1788

Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1788
Stærð: 82×58,7 sm