Prospect af Reykevig paa Island

Sæmundur gerði tvo samskonar Reykjavíkuruppdrætti með þessu sniði. Líklegt er að hér sé um skipulagsuppdrætti af Reykjavík að ræða og annar þeirra sé þá grunnteikning. Ástæðan fyrir gerð þeirra gæti verið flutningur biskupsstóls og skóla frá Skálholti til bæjarins enda gefur nafngift Sæmundar (Prospect) vísbendingu í þá átt. Því getur verið að hann hafi teiknað uppdrættina fyrir landsnefndina síðari með tilliti til væntanlegra nýbygginga yfir stól og skóla en nefndin starfaði á árunum 1785-1786. Nafn Carls Pontoppidans, framkvæmdastjóra hinnar konunglegu einokunarverslunar, er ritað á annan uppdráttinn en hann átti sæti í landsnefndinni. Á þeim má líka finna í einu horninu ártalið 1783.
Sæmundur Magnússon Hólm (1749-1821) var prestur og skáld og fræðimaður. Hann skrifaði mikið um náttúru Íslands, m.a. um Skaftárelda, og var drátthagur maður, gerði kort af landi og myndir af samtíðarmönnum. Myndir eftir hann eru m. a. í ferðabókum Eggerts og Bjarna og Ólafs Olaviusar.

Nánar

Höfundur: Sæmundur Magnússon Hólm
Útgáfuland: Óþekkt land
Útgáfuár: 1785

Útgáfuár: 1785
Stærð: 30,5×34 sm