Ole Mentzen Aanum og Ole Ohlsen voru norskir liðsforingjar sem höfðu verið sendir hingað til lands um aldamótin 1800 til strandmælinga. Á meðan þeir dvöldust í Reykjavík óskaði rentukammerið eftir því að þeir gerðu aðstöðuuppdrátt af kaupstaðnum með staðfræðilegri lýsingu.
Þrjú eintök af uppdrættinum eru kunn. Þetta kort sem hér sést gæti verið annað þeirra sem þeir félagar sendu rentukammerinu en kort þeirra lentu flest hjá Sjómælingastofnuninni þegar farið var var að hugsa fyrir útgáfu strandkortanna í umsjá hennar. Kortið snýr öfugt við venju, þannig að suður er upp en austur til vinstri.
Uppdrættirnir spanna svæðið frá Seli inn fyrir Arnarhól. Öll hús sem þá voru í bænum eru sýnd og skipt með mismunandi litum eftir byggingarefni í steinhús, timburhús og torfbæi. Hverju húsi fylgir tala sem vísar til skýringa við jaðra og greinir frá eigendum. Húsin eru 42 talsins. Í sérstakri athugasemd segir frá því hver þeirra eru byggð eftir að bærinn hlaut kaupstaðarréttindi, eða frá árinu 1788, og eru þau 16. Nokkur kotanna umhverfis bæinn eru nafngreind en flest eru þó nafnlaus.