Schonladia nvova

Þýski farandfræðimaðurinn Jacob Ziegler lét árið 1532 prenta eftir sig bók í Strassburg um hin nálægari Austurlönd. Í bókinni er auk þess kafli um Norðurlönd og eitt af átta kortum hennar er af löndunum við Eystrasalt og norðanvert Atlantshaf. Það var Sebastian Münster sem hélt Íslandsgerð Zieglers á floti fram undir lok 16. aldar með Norðurlandakorti því sem hann birti í útgáfu sinni á Landafræði Ptolemeusar árið 1540. Sjálfur hvarf hann frá henni nokkrum árum síðar er hann fékk veður af korti Olaus Magnus. Ptolemeusar-texti Münsters var þýddur yfir á ítölsku og gefinn út í Feneyjum 1548. Í bókinni eru 60 kort eftir Giacomo Gastaldi, flest gerð með hliðsjón af kortum Münsters. Þau eru talsvert minnkuð og prentuð eftir eirstungu og eru mörg hið fegursta verk en marka ekki stór spor í sögu landafræðinnar. Það vekur furðu að Gastaldi skyldi taka Münster og Ziegler sér til fyrirmyndar við gerð Norðurlandakorts síns en ekki kort Olaus Magnus, sem þarna var komið til sögunnar, því ekki er þekking hans á löndunum upp á marga fiska. Ísland (Islandia, Thyle) er mjög langt og mjótt og hefur að geyma fimm örnefni. Ef norðvesturhorn kortsins er skoðað nánar kemur í ljós að Gastaldi hafa orðið á hrapalleg mistök. Nafn Íslands (Islandia) og biskupsstólanna beggja (Scalholdin og Holensis) hafa villst inn á Grænland og standa því bæði þar og á Íslandi!
Árið 1561 efndi Vincenzo Valgrisi til nýrrar útgáfu á Landafræði Ptolemeusar í Feneyjum. Henni fylgdu áfram kort Gastaldis en höfðu nú verið stungin í eir að nýju, stækkuð talsvert og lagfærð á stöku stað frá útgáfunni 1548. Þegar litið er á Norðurlandakortið (Schonladia nvova) sést að ekki hafa allar lagfæringarnar verið til bóta, fjöll frumgerðarinnar eru horfin ásamt tveimur af fimm örnefnum. Nafn Íslands er horfið af Grænlandi en heiti biskupsstólanna standa þar enn.

Nánar

Höfundur: Giacomo Gastaldi/Vincenzo Valgrisi
Útgáfuland: Ítalía
Útgáfuár: 1561

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Feneyjar
Útgáfuár: 1561
Stærð: 18,5×24 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Feneyjar
Útgáfuár: 1561
Stærð: 18,5×24 sm