#

Saga


ÍSLAND Á LANDABRÉFUM EFTIR HARALD SIGURÐSSON

Þegar við lítum á landabréf af Íslandi, kemur það okkur ærið kunnuglega fyrir sjónir. Jafnvel þó að við séum ekki ýkja fróð um staðhætti, eru þó megindrættir strandlengjunnar, firðir hennar, flóar og nes, okkur svo kunnugir, að ruglingur við önnur lönd er óhugsandi. Þó er það mála sannast, að þessi mynd er ekki nema um það bil hálfrar annarrar aldar gömul, svo að ekki er nú af meiru að láta. Þeir sem lifðu við upphaf 19. aldar og fram undir hana miðja gerðu sér töluvert aðrar hugmyndir um landið, þótt ekki væru þær fjarri því, sem nú þykir réttast. Samanburður Íslandskorta frá ýmsum tímum sýnir okkur lítinn þátt í viðleitni mannsins að átta sig á umhverfi sínu og þoka sér áleiðis frá fjarstæðukenndum hugmyndum til vaxandi raunsæis og traustara yfirlits.


Fyrstu Íslandsgerðir á kortum

Ísland kemur fyrst fyrir á hinu svonefnda Engilsaxneska heimskorti í British Library (fyrr nefnt British Museum), en það ætla fróðir menn að sé gert nálægt þeim tíma, þegar Þorgeir stóð á þingi og kristni var lögtekin á Íslandi eða um 1000 e. Kr. Norðaustur í hafi frá Bretlandi og skaga, sem sennilega er Jótland, þótt nefndur sé Noregur, er allmikið land með mestum vegalengdum frá vestri til austurs. Austast á landinu stendur heitið Island, og er ekki kunnugt, að það orð komi fyrir í eldri heimildum rituðum. Hugmyndir kortagerðarmannsins um lönd og þjóðir á norðurslóðum hafa verið fjarska reikular og í brotum, eins og stundum vildi brenna við og ekki mun dæmalaust þótt litið sé nær.

Ísland er sýnt á nokkrum öðrum hinna meiri háttar miðaldakorta, og á ýmsum þeirra liggur landið norðaustur af Bretlandseyjum, en sunnan Noregs. Þetta gildir einkum um þau kort, sem ætla má að runnin séu af enskum rótum, þótt ekki séu þau öll gerð á Englandi. Á öðrum kortum er landinu komið fyrir einhvers staðar undan norðvestanverðri jarðkringlunni, eða því er ruglað saman við Thule, eyju, sem grískir farmenn eiga að hafa heimsótt á 4. öld fyrir okkar tímatal. Öllum er þeim sameiginlegt að gefa enga hugmynd um lögun landsins og vitna aðeins um tilvist þess.

Á 15. öld koma þrjár nýjar gerðir Íslandskorta til sögunnar. Eina þeirra má rekja til áhuga þess, sem kort Ptolemeusar vöktu, þegar þau bárust til Vestur-Evrópu frá Miklagarði á fyrstu árum aldarinnar, enda mörkuðu þau um langt skeið allar tilraunir til vísindalegrar kortagerðar. Það var danskur maður, Claudius Clavus, sem hér reið á vaðið og gerði tvær nokkuð mismunandi gerðir Norðurlandakorta, þar sem Ísland er tekið með. Eldri gerðinni voru sköpuð þau örlög að gleymast og koma ekki aftur í leitirnar fyrr en á 19. öld. Yngri gerðin, sem mun vera frá árunum 1425-1439, hlaut þann frama að verða um nær aldarskeið undirstaða flestra eða allra prentkorta af Íslandi. Vitneskja Clavusar um landið var þó fjarska lítil. Þó veit hann nokkurn veginn, hvar landið liggur sem markar spor í rétta átt, og kannast við biskupsstólana, og mun þá allt upptalið.

Um svipað leyti, en sennilega nokkru síðar, birtist ný Íslandsgerð á sjókortum Miðjarðarhafsþjóða. Landið heitir raunar Fixlanda (ritað á ýmsa vegu) og breyttist síðar í Fríslanda. Vafalaust er hér átt við Ísland, hvernig sem á nafninu stendur, en um það er allt óvíst og getgátur margar og ekki allar sennilegar. Lögun landsins er skapleg framar vonum og miklu réttari en á Clavusar-kortunum. Megindrættir suður og vesturstrandarinnar eru nærri lagi og glöggt markað fyrir Reykjanesi, Snæfellsnesi og Vestfjörðum, þótt hlutföllum sé ábótavant. Örnefni eru allmörg, þótt fæst verði færð til ákveðinna staða og önnur bendi fremur til einkenna á landi en staðanafna. Ýmislegt bendir til þess, að Íslandsgerð þessi eigi uppruna sinn að rekja til enskra far- og fiskimanna, sem hófu Íslandssiglingar á fyrstu árum 15. aldar ef ekki fyrr, en sumir þeirra ráku samhliða viðskipti við þjóðir Miðjarðarhafslanda. Íslandsgerð þessi mótaði um eitt skeið hugmyndir sjókortamanna um Ísland, og hún hvarf ekki endanlega af sjónarsviðinu fyrr en um 1600. En löngu fyrr, eða í byrjun 16. aldar, virðist hún hafa orðið undirstaða nýrrar Íslandsgerðar í höndum portúgalskra og franskra sæfara, en Fixlandanafnið var látið víkja fyrir hinu rétta heiti landsins. Kort þessi eru oft kennd við hafnarbæinn Dieppe á Frakklandi, þar sem ýmis þeirra voru gerð, þótt uppruna þeirra virðist fremur að rekja til Portúgals. Kort þessi voru um eitt skeið furðu nærri sanni og hin bestu, er gerð voru á undan korti Guðbrands biskups Þorlákssonar.

Um svipað leyti skýtur þriðju gerðinni upp á katalónskum sjókortum. Þar er landið þyrping smáeyja, sem hver hefur sitt nafn, en til samans heita þær Íslandseyjar. Sú gerð átti litlu gengi að fagna og hvarf um sinn úr sögunni, en var svo vakin upp á hinu svonefnda Zeno-korti árið 1558. Þar er öllum gerðunum þremur steypt saman, svo úr verður skelfilegur hrærigrautur, og öll landaskipun í og við norðanvert Atlantshaf fjarskalega torkennileg. Ýmsar af firrum þessa korts entust þó furðu lengi, og fram á 17. öld var Frislanda, eins og þá var aftur farið að nefna landið, sýnt á kortum.

Árið 1532 kom út ný Norðurlandalýsing eftir Jacob Ziegler, þýskan farandlærdómsmann. Bókin er oftast nefnd Schondia, en hefur annars firna langt heiti að þeirra tíma hætti. Henni fylgir nýtt Norðurlandakort, þar sem hin suðnorðlæga stefna Skandinavíu kemur fyrst til sögunnar. Áður var stefna skagans oftast frá austri til vesturs. Kortið markar þannig drjúg spor í kortasögu Noregs og Svíþjóðar, en sama verður tæplega sagt um Ísland, sem er löng eyja og fremur mjó frá norðri til suðurs. Kortið bendir til ákaflega takmarkaðra kynna af Íslandi. Af örnefnum á landinu eru nefndir biskupsstólarnir báðir og Hekluskagi, og kemur hið fræga eldfjall hér fyrst við sögu á landabréfi, en mun þó ruglað saman við Snæfellsjökul. Kort Zieglers hlaut takmarkaða útbreiðslu. Það var þó tekið upp í Ptolemeusar-útgáfur næstu áratuga og nokkur önnur kort og hnattlíkön.


Norðurlandakort Olaus Magnus

Það bjó Ziegler-kortinu feigð, að sjö árum síðar kom út nýtt Norðurlandakort og miklu rækilegra eftir Olaus Magnus, sænskan kirkjuhöfðingja. Það var prentað í Feneyjum árið 1539. Kortið er um margt hið merkilegasta og óþrjótandi uppspretta fróðleiks um þjóðtrú, menningu og atvinnuhætti Norðurlandabúa og náttúru landanna.

Ísland er í aðaldráttum sporlaga og meginstefna þess frá suðvestri til norðausturs. Nokkur örnefni eru á landinu, sem benda til aukinna kynna, þó að annað beri takmörkuðum og vafasömum heimildum vitni. Þau hafa líklega orðið á vegi höfundarins í hafnarbæjum Norður-Þýskalands og Niðurlanda, en þaðan voru miklar Íslandssiglingar til verslunar og fiskveiða. Heimildir þessar eru nú flestar ókunnar, en það bendir á tilvist þeirra, að Gerhard Mercator virðist hafa notað svipuð gögn, sjálfstætt og óháð, þegar hann gerði hnattlíkan sitt árið 1541. Sumir halda því raunar fram, að hann fari þar eftir korti Olaus. Á síðari kortum sínum, Evrópukortinu 1554 og heimskortinu 1569, tók Mercator upp mest af því umframefni, sem Olaus hafði um Ísland. Það gæti ásamt fleiru bent til þess, að hann hafi ekki þekkt kort Olaus, þegar hann gerði hnattlíkan sitt, enda er það ekki nema tveim árum eldra.

Íslandskort þeirra Olaus og Mercators mörkuðu svo gerð flestra prentkorta næstu hálfa öld, og dró þar drýgst til, að Abraham Ortelius tók hana upp í hið nýja og fræga kortasafn sitt, Theatrum orbis terrarum, en af þeirri bók komu út á milli þrjátíu og fjörutíu útgáfur á árunum 1570-1612. Ortelius varð raunar fyrstur til þess að birta hið nýja Íslandskort Guðbrands biskups, en að þeirra tíma hætti lét hann hina fyrri gerð standa óbreytta við hlið þess. Á sjókortum, en þau voru sjaldnast prentuð um þessar mundir, var hin forna Fixlanda- eða Fríslandagerð enn ríkjandi, oftast í hinni endurskoðuðu gerð Portúgala og Frakka og með heitinu Ísland.


Guðbrandur biskup Þorláksson og Íslandskort hans

En þá er það sem Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar kemur til sögunnar. Ekki er vitað með vissu, hvenær það er gert, því að kortsins er sjaldan getið í íslenskum heimildum. Það birtist fyrst í Additamentum IV Theatri orbis terrarum, viðaukabindi nýrra korta, sem Ortelius gaf út við safn sitt árið 1590. Á kortinu sjálfu stendur, að myndamótið sé gert 1585, svo að það hlýtur að vera eitthvað eldra. Kortið er ekki eignað biskupi sjálfum, heldur dönskum fræðimanni, Anders Sørensen Vedel (Andreas Velleius), sem mun hafa fengið það og sent Orteliusi. Fimm árum síðar (1595) birtist kortið í nokkuð breyttri gerð í kortasafni Mercators, Atlas sive cosmographicæ, sem var gefið út í Duisburg 1595. Bæði kortin komu út í fjölmörgum útgáfum bókanna með texta á ýmsum málum.

Ekki er kunnugt, hvernig biskup vann að korti sínu, né hverjar heimildir hans voru í smáatriðum. Sem Íslendingur var hann auðvitað ólíkt kunnugri landinu en útlendingar þeir, sem áður freistuðu að gera Íslandskort af litlum og vafasömum tilföngum. Þó virðist auðsætt, að fjarðatöl þau, er til voru frá fornu fari af allri strandlengjunni og enn eru varðveitt, hafi dregið hann drýgst, er hann markaði fyrir strandlengjunni. Margt bendir líka til þess, að biskup hafi notað forn kirknatöl, þótt ekki sé það öruggt, því að sem kirkjuhöfðingja var honum það efni að sjálfsögðu gjörkunnugt. Ekkert bendir til mælinga eða hnattstöðuákvarðana; þótt vitað sé, að Guðbrandur mældi hnattstöðu Hóla, þá ber henni ekki saman við kortið, og líklega er hún ekki gerð fyrr en síðar. Ummæli Arngríms lærða benda til þess, að þeim frændum, honum og biskupi hafi þótt lítið koma til kortsins í endanlegri gerð þeirra Orteliusar og Mercators.

En þrátt fyrir alla vankanta er þó kort þetta hið elsta, sem gefur nokkurn veginn raunsanna mynd af landinu. En hvorugt þessara korta átti langlífi að fagna. Það féll í hlut annars korts eftir annan mann, Joris Carolus, hollenskan sæfara, sem um skeið var mjög riðinn við siglingar um Norðurhöf. Hann dvaldist eitthvað á Íslandi og kynntist Jóni lærða Guðmundssyni, sem hefur eftir honum harla vafasaman fróðleik um Gunnbjarnareyjar í einu rita sinna. Undirstaðan að korti Joris Carolusar er Íslandskort Guðbrands biskups í gerð Mercators og frávik fæst til bóta, enda gætir lítt kynna hans af landinu. Frumprentun Íslandskorts þessa er að finna í ófullgerðu kortasafni Jodocus Hondiusar yngra frá árunum 1615-1629, en 1626 fékk Joris Carolus einkaleyfi hollenskra yfirvalda til þess að gera Íslandskort og líklegt, að það sé frá því ári. Það átti fyrir því að liggja að komast inn í kortasöfn tveggja stærstu kortaútgefenda Hollands, sem prentuðu það í fjölmörgum útgáfum, auk þess sem það varð undirstaða Íslandskorta meðal Frakka og Ítala. Leið svo fram meira en öld, að kort Joris Carolusar var aðalheimild allra Íslandskorta, þótt smávegis breytingar væru gerðar á strandlínum landsins á hollenskum sjókortum 17. og 18. aldar, en lengst af þeim tíma voru Hollendingar einir um gerð þeirra.

Þórður Þorláksson, síðar biskup, gerði á námsárum sínum kort af Íslandi, sem til er í þremur mismunandi gerðum. Tvö þeirra eru frá 1668, en þriðja tveim árum yngra. Undirstaða þeirra eru kort og mælingar Guðbrands biskups langafa hans. Á kortum, sem röktu uppruna sinn til Guðbrandskorts, var lengd landsins alltof mikil eða um og yfir 20 lengdargráður. Þó að Joris Carolus bæti hér nokkuð um, færir Þórður þetta meira til hæfis, svo að lengdin verður ekki nema h.u.b. 12 gráður, sem ekki er ýkja fjarri lagi. En kort Þórðar voru lögð til hliðar og birtust ekki fyrr en á þessari öld og urðu því engum að gagni.


Mælingar hefjast

Dönskum einokunarkaupmönnum var það mikill bagi, að ekki voru til sæmileg sjókort af ströndum landsins, einkum í grennd við hafnir og verslunarstaði. Til þess að ráða bót á þessum vanda ákvað danska stjórnin árið 1651 að senda Bagge Wandel til Íslands, einkum til hafnamælinga. Ekki er vitað til, að neitt yrði úr framkvæmdum, eða að Wandel hafi nokkru sinni komið til landsins. Liðu svo fram næstu sjötíu árin, að ekkert var hreyft frekar við þessu máli, og allar aðgerðir lágu niðri. En nálægt 1720 hefjast Danir handa á ný. Hans Hoffgaard, sennilega í þjónustu einokunarverslunarinnar, gerði um þær mundir tvö Íslandskort, og öðru þeirra fylgja uppdrættir af öllum verslunarhöfnum landsins. Frá svipuðum tíma (1721) er Íslandskort eftir Peter Raben stiftamtmann. Það er heldur fátæklegt, enda var gerð þess aldrei lokið. En Raben tók til annarra ráða. Hann fékk því ágengt við dönsk stjórnvöld, að hafnar voru reglulegar mælingar á Íslandi, og skyldi gert "land- og sjókort hans hátign til ánægju". Til verksins var valinn íslenskur maður, Magnús Arason frá Haga á Barðaströnd, en hann hafði þá um hríð verið liðsforingi í mannvirkjaliði danska hersins. Hann hóf mælingar sumarið 1721 og hélt þeim áfram í sjö sumur, uns hann drukknaði í Breiðafirði snemma árs 1728. Hafði hann þá lokið mælingum svæðisins frá Reykjanesi til Arnarfjarðar. Magnúsi var boðið að gera nákvæmar hnattstöðumælingar, en lítið mun hafa farið fyrir því, enda var fjarska illa búið að mælingunum, bæði að fé og tækjum, t.a.m. hafði í hann enga aðstoðarmenn.


Knoffs-kortin

Eftir lát Magnúsar Arasonar voru norskir landmælingamenn sendir til Íslands að ljúka verkinu, undir forystu Th. H. H. Knoffs. Fjárveitingar voru auknar og allur aðbúnaður bættur. Luku þeir verkinu á fimm árum og mældu það sem á vantaði hjá Magnúsi og lagfærðu kort hans, þar sem þurfa þótti. Gerðu þeir sjö kort af afmörkuðum svæðum og síðan heildarkort af landinu öllu: Siø og Land Carte over Island ... MDCCXXXIV.

Ekki var þó hafður neinn asi á um útgáfu kortanna, því að ekki voru þau birt í heild eða aðalkortið sjálft fyrr en 1944, enda var nánast litið á þau sem her- og ríkisleyndarmál. Fátæklegt kort, sem hafði Knoffs-kortið að undirstöðu, var þó birt í bók Niels Horrebows, Tilforladelige Efterretninger om Island, sem gefin var út í Kaupmannahöfn 1752. Betri eftirmynd birtist í Nürnberg árið 1761 á vegum hinna kunnu kortaútgefenda Die Homännischen Erben: Insvlae Islandiae delineatio. Kort þessi urðu fram á 19. öld fyrirmynd flestra Íslandskorta, þótt gerðar væru á þeim nokkrar minni háttar breytingar og lagfæringar, er tímar liðu. Þeirra gætir mest á kortum þeim, sem Jón Eiríksson stóð að og fylgdu ferðabókum Eggerts Ólafssonar og Ólafs Olaviusar.


Ný gerð Íslandskorta

Árið 1771 gerði franska stjórnin út mikinn vísindaleiðangur um norðanvert Atlantshaf, undir forystu Verdun de la Crennes. Leiðangursmenn komu til Íslands og dvöldust um hríð á Vatneyri og mældu bæði á sjó og landi. Vestustu odda landsins færðu þeir til austurs um nálægt hálfa fjórðu gráðu, án þess að hrófla að ráði við hnattlengd austurstrandarinnar, enda komu þeir aldrei þangað. Á þessum hæpnu forsendum var svo gert kort af Íslandi, og birtist það á heildarkorti af Norður-Atlantshafi: Carte réduite des Mers du Nord . . . 1776. Var kort þetta sýnu fjær sanni en þau, sem fyrir voru. En hér voru frægðarmenn á ferð og ekki að furða, þó að ýmsir fetuðu í fótspor þeirra. Kort af stofni þeirra Knoffs og Verdun de la Crennes toguðust löngum á um þessar mundir, og veitti hinum síðarnefndu betur um hríð.


Strandmælingarnar fyrri 1776-1777 og síðari 1800-1819

Þótt Knoffs-kortin væru drjúg framför frá korti Guðbrands biskups, fór því fjarri, að þau stæðust samanburð við bestu kort, er gerð voru um þær mundir. Hin stærri og nákvæmari kort einstakra landshluta lágu gleymd og grafin í skjaladyngjum danskra stjórnarráða, og prentkortin voru lítið meira en lauslegur útdráttur þeirra. Stjórnvöldum þótti því ærin ástæða að efna til nýrra landmælinga á Íslandi, og enn sem fyrr voru sjókortin efst á baugi, en mælingar þeim til viðbúnaðar þóttu hafa orðið útundan hjá þeim Magnúsi og Knoff. Árið 1776 var danskur mælingamaður, Hans Erik Minor, sendur til Íslands, og skyldu nú hafnar sjómælingar. Hann vann að þeim það sumar og hið næsta, en drukknaði í Hafnarfjarðarhöfn nýkominn til landsins 1778. Hann hafði þá lokið við að kortleggja Faxaflóa og sunnanverðan Breiðafjörð inn fyrir Stykkishólm, og voru kortin gefin út 1788, ásamt leiðalýsingu.

Eftir dauða Minors var hlé á verkinu um sinn, en árið 1800 var hafist handa á nýjan leik. Það voru aðallega norskir herforingjar, sem unnu að verkinu, og var því ekki lokið fyrr en 1819. Kortin voru svo gefin út á árunum 1818-24, í umsjá Poul de Løvenørns, sem um þær mundir var forstöðumaður Sjókortasafnsins danska, og ritaði hann rækilegar leiðarlýsingar með þeim. Árið 1826 kom svo út heildarkort af allri strandlengju landsins. Þá fyrst er landinu markað það svipmót, er við þekkjum öll.


Björn Gunnlaugsson. Mælingu Íslands lokið

Þótt strandmælingarnar væru merkur áfangi, var enn langt að settu marki, viðunandi korti af landinu í heild, byggðum þess og óbyggðum. Á sjókortin var aðeins dregin strandlínan og nágrenni hennar, ásamt þeim fjöllum, er séð urðu af sjó og farmenn gátu áttað sig á og haft til leiðbeiningar. Landsmönnum sjálfum komu þau að minna haldi, hvort sem litið var til almennrar þekkingar á landinu sjálfu eða til annarra nota. Nú vildi svo heppilega til, að á Íslandi var maður, sem lokið hafði háskólaprófi í stærðfræði og unnið um skeið að landmælingum. Þessi maður var Björn Gunnlaugsson, kennari við latínuskólann á Bessastöðum.

Björn hóf mælingarnar sumarið 1831 og hélt þeim áfram til 1843, að sumrinu 1836 undanskildu. Bókmenntafélagið veitti honum fjárstyrk til mælinganna, og 1836 veitti danska stjórnin honum 100 dala viðbót, sem hann hélt uns verkinu lauk. Í fyrstu var svo ráð fyrir gert, að hver sýsla yrði mæld sér og gert kort af henni. En þegar til kom þótti ekki fært að ráðast í svo mikið fyrirtæki vegna kostnaðar. Dönskum manni, O. N. Olsen, var falið að sjá um útgáfuna í Kaupmannahöfn. Hann lagði til, að Íslandskortið yrði prentað á fjórum blöðum. Það kom í hans hlut að taka við kortunum frá Birni af hverri sýslu eða landsvæði fyrir sig, skeyta þau saman og minnka. Kortið: Uppdráttr Íslands, kom svo út 1848, á titilfeldi stendur raunar 1844. Myndamótið af þeim hluta landsins mun hafa verið gert það ár, þótt bið yrði á prentun. Miðað við aðstæður er uppdráttur Björns frábær og með mestu afrekum, er unnin hafa verið á sviði íslenskrar landa- og náttúrufræði. Þó er honum að vonum ábótavant um margt. Hann átti þess ekki kost að ferðast um allt landið. Þó fór hann um flestar byggðir þess og töluvert um óbyggðir. Byggðirnar urðu að ganga fyrir og fullkomið kort öræfanna að bíða betri tíma. Hefði Björn lagt út í nákvæmari mælingar, hefði honum aldrei auðnast að ljúka verkinu og heppilegra að slaka á kröfunum, þar sem minna reið á nákvæmni. Þrátt fyrir nokkra vankanta eru mælingar og uppdráttur Björns vísindalegt afrek, einstætt í sinni röð, unnið við knappasta aðbúnað um fjármagn og jafnvel tækjakost.

Íslandskort Björns Gunnlaugssonar var undirstaða allra uppdrátta af landinu í meira en hálfa öld, og hlutverki þess var ekki lokið fyrr en 1944, þegar búið var að prenta í Kaupmannahöfn ný kort af landinu öllu eftir nýjum og fullkomnari mælingum. Til Íslands bárust þau ekki fyrr en með skipagöngum frá Danmörku 1945, að síðari heimsstyrjöldinni lokinni.


Helstu kort fram til aldamóta

Ef litið er yfir árin fram til aldamóta, kemur þó í ljós, að töluvert var unnið og nokkrum árangri náð. Strandmælingunum var vart lokið, þegar Løvenørn hóf baráttu fyrir framhaldi þeirra og auknum sjómælingum. Honum var ljóst, að áfanginn, sem náðst hafði var aðeins undirstaða, sem framtíðin yrði að hlaða ofan á. Ítrekaðar tilraunir hans, að verkinu yrði haldið áfram, og fjárbeiðnir til framkvæmda hlutu engar undirtektir, enda andaðist hann um þær mundir (1826), og málinu var ekki hreyft næstu árin.

Frakkar sendu fiskiflota sinn ár hvert á Íslandsmið, og fylgdu honum herskip til aðstoðar. Þegar kanna skyldi fiskileitir, varð að mæla dýpi og færa þær mælingar til korta, en í því efni var strandmælingum Dana harla áfátt enda orðið að mestu leyti útundan. Það var nálægt 1840, að Frakkar hófu sjómælingar við Íslandsstrendur og héldu þeim áfram fram undir 1870. Kort þessi voru prentuð ýmist sérstök eða felld að hinum dönsku sjókortum, sem gefin voru út í París í auknum og endurskoðuðum útgáfum. Dönskum stjórnvöldum leist miður vel á þessar aðfarir Frakka og hugðu meira búa undir. Árið 1865 brugðu þeir á það ráð að senda herskip til Íslands til eftirlits og strandgæslu og vatt svo fram um langan aldur. Áhafnir herskipanna skyldu vinna að sjómælingum, ef önnur brýnni skyldustörf væru ekki fyrir hendi. Mælingar þeirra sýndu glöggt, að gömlu sjókortin voru fjarska ónákvæm. Árangur af þessum sjómælingum Dana var nýtt sjókort: Island med omliggende Dybter. Það kom út 1871 og var síðan gefið út í auknum og leiðréttum útgáfum og í stærri mælikvarða, eftir því sem mælingum vatt fram, uns Sjómælingar Íslands tóku við verkinu 1960. Þær hafa síðan haldið því áfram, bæði mælingum og kortagerð, en áður höfðu nokkrir Íslendingar aðstoðað við mælingarnar.

Um nýjar mælingar á landi var ekkert hugsað. Kr. Kålund lét gera eftirmyndir af korti Björns Gunnlaugssonar, skiptu niður í sýslukort, en ekki er þar um neinar leiðréttingar að ræða. Eftirmyndir af korti Björns fylgja ýmsum ferðalýsingum útlendinga, er fóru um landið, ærið misjafnar að efni og gæðum. Á einstaka stað bregður þó fyrir nýjum athugunum. Hægt og hægt bárust eftirmyndir af korti Björns Gunnlaugssonar inn í öll meiri háttar kortasöfn, sem gerð voru víða um heim. Helst mætti telja það til nýjunga, að þeir C. W. Paijkull (1867) og Konrad Keilhack (1886) létu birta jarðfræðikort af landinu, en undirstaða beggja var kort Björns Gunnlaugssonar.

Árið 1882 hóf ungur náttúrufræðingur, Þorvaldur Thoroddsen, að rannsaka landið. Hann ferðaðist um það hér um bil allt á árunum 1882-1898. Verkefni hans var þó aðallega að kanna jarðfræði landsins og ekki síst eldgosaminjar. Brátt urðu honum ljósar skekkjurnar á uppdrætti Björns, ekki síst á hálendinu. Að loknum leiðangri um Ódáðahraun sumarið 1884 gerði hann nýtt kort af svæðinu: Uppdráttur af Ódáðahrauni. Birtist hann ári síðar í íslenskri, danskri og þýskri útgáfu. En landmælingar áttu ekki samleið með rannsóknum Þorvalds og urðu aldrei annað en hliðargrein. Árið 1900 birti Þorvaldur nýtt heildarkort af landinu á tveimur blöðum: Kort over Island. Þar dregur hann saman lagfæringar sínar og viðauka og fellir að korti Björns. Ári síðar kom út jarðfræðiuppdráttur hans: Geological Map of Iceland. Kortið er í rauninni hið sama og uppdrátturinn frá árinu áður, aukið jarðfræðilitum. 1906 birtist endurskoðuð gerð þess í Þýskalandi, en í minni mælikvarða: Geologische Karte von Island. Því fylgir lýsing landsins á þýsku, og hefur hún að geyma meginniðurstöðurnar af rannsóknum Þorvalds.

Ýmsir menn, innlendir, en þó flestir erlendir, lögðu leið sína um landið á síðari hluta 19. aldar og fyrstu áratugum hinnar 20. Hér mætti fyrst nefna til Daniel Bruun, danskan liðsforingja. Hann ferðaðist um landið árum saman við fornleifarannsóknir og lét prenta nýjan uppdrátt af landinu, aukinn smávægilegum lagfæringum. Nokkrir fleiri gerðu athyglisverðar úrbætur, er horfðu til bóta, ef leið þeirra hefði legið inn á almenn landabréf. Flest er þetta þó smávægilegt og dulið almenningi í sérfræðiritum og ferðafrásögnum.


(Haraldur Sigurðsson: "Ísland á landabréfum. Nokkrir drættir". Kortasafn Háskóla Íslands. Reykjavík 1982, s. 7-15. Aðeins stytt).