Island

Kortið var samansett að frumkvæði Rasmus Rask. Honum þótti slæmt að þjóðin ætti ekki brúklega bók um landaskipan. Á fyrsta fundi félagsdeildar Bókmenntafélagsins í Kaupmannahöfn í apríl 1816 var samþykkt að láta taka saman og prenta Almenna landaskipunarfræði. Í upphafi var gert ráð fyrir því að bókinni fylgdu fimm landabréf en seinna var einu bætt við, korti af Íslandi. Kortagerðin var falin Moritz Ludvig Born, þeim hinum sama og rak smiðshöggið á strandmælingarnar í byrjun 19. aldar. Nokkur töf varð á að kortið kæmi út því ekki var búið að ganga frá nema nokkrum hluta strandkortanna en þau áttu að verða fyrirmynd þess.
Kortið er frekar einfalt að allri gerð. Hnattstaða og strandlengja er með sama hætti og á strandkortunum og korti Poul de Løvenørns af Íslandi og Færeyjum. En vegna þess hve mælikvarðinn er minnkaður mikið verða strandlínurnar ónákvæmari en ætla mætti. Skil fjórðunga eru mörkuð á kortið og eru þeir oftast í mismunandi litum en sum kortin eru þó svarthvít. Inn til landsins er kortið að mestu autt, örnefni eru rúmlega 100 og flest að íslenskum hætti.
Þó að Íslandskort Borns sé fátæklegt markar það þó merkan áfanga í kortasögu Íslands. Það var fyrsta kort af landinu sem var gert með íslensku lesmáli og beinlínis fyrir Íslendinga. Auk þess er það elst af þeim kortum, þar sem strandlínur landsins og hnattstaða er nokkurn veginn rétt. Hér birtist landið okkur fyrst í þeirri mynd, sem við könnumst öll við, því að enn voru ekki öll strandkortin komin út.

Nánar

Höfundur: Moritz Ludvig Born
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1821

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1821
Stærð: 23,4x29,9 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1821
Stærð: 23,4x29,9 sm