Kort og Grundtegning over Handel Stædet Reikevig i Island med angrændsende Huusmænds Pladser, som efter Kongelig Allernaadigste Befalning skal anlegges til Kiöbstæd

Í auglýsingunni um kaupstaðarréttindin 18. ágúst 1786 var gert ráð fyrir að mæld yrði út lóð fyrir kaupstaðinn. Norðmaðurinn Rasmus Lievog var fenginn til verksins en hann hafði verið ráðinn sem stjörnuskoðari og mælingamaður á Íslandi 1779. Innan lóðarmarka staðarins áttu kaupmenn og iðnaðarmenn sem sóttu um borgarabréf að fá að reisa hús og versla. Þegar Lievog mældi út lóðina 1787 töldust jarðirnar Örfirisey og Arnarhóll til hennar. Þær voru síðar teknar undan en land hjáleignanna Stöðlakots og Skálholtskots bættist við. Kaupstaðarlóðin er merkt gulum lit en grænt er ræktað land utan hennar. Vestan við Víkurkirkju er fyrsta gata bæjarins, Aðalstræti, sem myndaðist af húsum Innréttinganna er stofnaðar voru 1751. Nyrst við bryggjuna má sjá verslunarhúsin sem flutt höfðu verið úr Örfirisey. Austan við lækinn sést tukthúsið, reist um 1770. Kortið sýnir glöggt hve þröngur stakkur hinni verðandi höfuðborg var skorinn en árið 1787 voru íbúar Reykjavíkur taldir um 300. Kortið er nákvæmt og merk heimild um upphaf Reykjavíkur.

Nánar

Höfundur: Rasmus Lievog
Útgáfuland: Óþekkt land
Útgáfuár: 1787

Útgáfuár: 1787
Stærð: 55,7×41,8 sm