#

Um vefinn


Árið 1997 var lokið við að setja öll gömul Íslandskort Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (prentuð fyrir 1900) á stafrænt form og veita aðgang að þeim um netið. Tildrög verkefnisins má rekja til þess að safninu hafði borist peningagjöf frá NORDINFO (Norrænu samvinnunefndinni um vísindalegar upplýsingar) sem nota átti á sviði upplýsingatækni. Verkið naut einnig styrks frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.


Það er ljóst að Landsbókasafn á ekki öll kort sem gerð hafa verið af Íslandi fyrr á öldum. Öll helstu kortin eru þó til, sum í nokkrum eintökum. Snemma kom fram sú hugmynd að nota kortavefinn til að búa til heildarmynd af kortasögu Íslands. Reynt yrði að ná til sem flestra fornra korta af landinu og birta þau á vefnum. Nokkur stór kortasöfn eru til hér á landi, bæði hjá einstaklingum og stofnunum. Seðlabankinn á allstórt safn af kortum, einnig Landmælingar Íslands sem og Háskóli Íslands. Kortasafn Seðlabankans er svipað að stærð og safn Landsbókasafns eða um 250 kort. En að frumkvæði Seðlabankans og með fjárstyrk frá stjórn hans voru kort bankans mynduð á stafrænan hátt árin 2003-2004 og gerð aðgengileg við hlið korta Landsbókasafns á vefnum.


Árið 2012 var vefurinn síðan endurgerður frá grunni og útlit hans samræmt við aðra vefi Landsbókasafns. Öll kort safnsins voru mynduð á ný og birt á pdf og jpeg formi og eru því gæði myndanna talsvert betri nú en áður var. Þar sem það var mögulegt voru bakhliðar kortanna myndaðar líka. Á forsíðu er tímalína sem gefur fjölbreyttari möguleika til að skoða kortin. Flestum kortunum fylgir stutt söguleg lýsing á íslensku og ensku. Við gerð þeirra hefur aðallega verið stuðst við Kortasögu Íslands eftir Harald Sigurðsson. Einnig hefur verið farið eftir þeirri bók þegar kortin hafa verið flokkuð eftir aldri og skyldleika.


Kortunum á vefnum hefur einnig fjölgað talsvert, kortasafn Háskóla Íslands er komið inn og þau kort sem Þorvaldur Thoroddsen gerði hafa fengið sinn sess. Síðan hafa herforingjaráðskortin svokölluðu verið mynduð og sett á vefinn en það eru kort sem landmælingadeild danska hersins lét gera af hluta Íslands í byrjun síðustu aldar. Í framhaldi af þeim koma síðan kort Landmælingastofnunar Dana (Geodætisk Institut) af öllu landinu. Loks eru birt kort sem kortadeild Bandaríkjahers (AMS) gaf út á árunum 1948-1951.Útgáfuár
Heildarfjöldi korta
Heildarfjöldi kortaútgáfa
1544 - 1949
282
1056