Sigurdi Stephanii terrarum hÿperborearum Delineatio. Anno 1570

Undir lok 16. aldar og á þeirri 17. gerðu nokkrir Íslendingar kort af norðanverðu Atlantshafi og löndunum í kring. Þeir freistuðu þess að samræma fornar íslenskar frásagnir um landaskipan á þessum slóðum við kort þau er þá voru í mestu gengi eða menn höfðu við höndina. Kortin voru í það smáum mælikvarða að erfitt var að gera Íslandi viðhlítandi skil enda var gerð þess í rauninni aukaatriði. Fyrir kortagerðarmönnunum vakti að gera grein fyrir siglingum Íslendinga vestur um haf til Grænlands og Ameríku. Gerð þeirra flestra stóð sennilega í sambandi við fyrirætlanir Danakonunga um að ná að nýju tangarhaldi á Grænlandi. Kort þessi eru í rauninni frekar hluti af kortasögu Grænlands en Íslands.
Af öllum kortunum eru til nokkrar mismunandi eftirmyndir en tvö þeirra eru ekki lengur til í frumgerð. Þessi mynd af korti Sigurðar Stefánssonar, skólameistara í Skálholti, er úr bók Þormóðs Torfasonar Gronlandia antiqva frá 1706 en hann birtir öll kortin nema eitt. Frumrit Sigurðar er glatað en ártalið á kortinu hlýtur að vera vitlaust því hann er talinn fæddur um 1570. Flestir eru á einu máli um að kortið muni vera gert 1590 og þriðja talan því misritast.
Um skipan landa vestanhafs hefur Sigurður líklega farið eftir uppdrætti sem svipaði til heimskorts Mercators frá 1569 með nokkru ívafi úr korti Johannesar Ruysch af stöðu Grænlands. Á vesturströnd þess lands sem er nú kallað Ameríka eru Helluland, Markland og Skrælingjaland. Fyrir norðan Grænland er Risaland og austar eru Jötunheimar og Bjarmaland. Lítið er hægt að segja um lögun Íslands á frumgerðinni því eftirmyndirnar greinir nokkuð á. Á þessu korti er það býsna ólögulegt þó að því svipi meira til korts Guðbrands biskups heldur en eldri hugmynda.

Nánar

Höfundur: Sigurður Stefánsson
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1706

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1706
Stærð: 17,2×17,2 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1706
Stærð: 17,2×17,2 sm