Islandia

Tímaskeiðið milli tveggja mestu kortagerðarmanna Íslands á fyrri tíð tekur yfir nærri 250 ár. Guðbrandur Þorláksson biskup og Björn Gunnlaugsson ruddu ekki einungis nýjar brautir í kortagerð, heldur sáu þeir einnig sjálfir afrakstur iðju sinnar á prenti. Kort þeirra náðu þannig augum samtíðarmanna sem mátu afrek þeirra mikils þó að það væri í gegnum endurgerðir. Örlög Þórðar Þorlákssonar biskups, sem hlýtur að teljast þriðji fremsti kortagerðarmaður Íslands vegna þekkingar sinnar, hæfileika og afreka, urðu óblíðari.
Þórður var fæddur að Hólum í Hjaltadal árið 1637, sonur Þorláks Skúlasonar biskups og konu hans Kristínar Gísladóttur. Langafi hans var Guðbrandur Þorláksson biskup.  Þórður ólst upp á stað þar sem menn voru hvattir til mennta og hafði hæfileika til að ná góðum árangri. Árið 1647 lauk faðir hans við fræðirit fyrir Otte Krag, ritara í danska stjórnarráðinu, þar sem hann fjallar um það hversu áreiðanleg skrif útlendinga um Ísland hefðu verið. Efni þessa rits gefur eigi alllitla vísbendingu um þann lærdóm sem Þórður hafði aðgang að í uppvexti sínum. Þegar hann hafði lokið skólagöngu sinni á Íslandi hélt hann til Kaupmannahafnar árið 1656 og skráði sig í háskólann þar. Þórður var sannarlega fróðleiksfús og vel gefinn maður og nýtti sér dvölina í Kaupmannahöfn vel; auk þess að ljúka guðfræðinámi á tveimur árum lærði hann að leika á fjölda hljóðfæra og varð vel lærður í raunvísindum. Hann sneri aftur til Íslands og dvaldist þar í fimm ár. Síðan hélt hann enn til Kaupmannahafnar og hafði þar vetursetu veturinn 1663. Þaðan fór hann til Rostock, og sex mánuðum síðar lá leið hans til Wittenberg þar sem hann stundaði nám fram til 1666. Meðan hann var í Wittenberg skrifaði hann ritgerð til háskólaprófs um sögu og staðfræði Íslands. Ritgerðin, sem bar titilinn Dissertatio Chorographico-Historica De Islandia og er 24 blaðsíður, var prentuð þrisvar sinnum á árunum 1666 til 1690, og er það til marks um gildi hennar fyrir háskólasamfélag þess tíma. Í Dissertatio var ekkert kort af Íslandi, og ekki er vitað hvort það var nokkurn tímann ætlunin; en skömmu eftir að Þórður fór frá Wittenberg og lauk meistaraprófi í Kaupmannahöfn fór hann að stunda kortagerð.
Fyrstu tvö kort Þórðar Þorlákssonar af Íslandi voru gerð árið 1668, og eru þau bæði varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn (NKS 1088b fol). Annað virðist vera gróft uppkast af hinu þar sem þeim svipar saman í aðalatriðum, staðarákvarðanir og staðanöfn eru sambærileg. Ef meginlínur þessara korta minna á einhvern hátt á kort Guðbrands Þorlákssonar af Íslandi má segja Þórði til varnar að hann hlýtur að hafa borið takmarkalausa virðingu fyrir kunnáttu langafa síns. Hins vegar eru kort Þórðar miklu nákvæmari en báðar gerðirnar sem gefnar voru út eftir korti Guðbrands biskups, og á þeim eru um 465 staðanöfn, en voru 250 hjá Guðbrandi. Þórður staðsetur Hóla líka nákvæmlega á sama stað og Guðbrandur hafði miðað út samkvæmt stjörnufræðiútreikningum nærri sjötíu árum áður.
Þórður lauk við þriðja kort sitt af Íslandi um 1670, en það er nú í Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi (AM 379b fol). Það var persónuleg gjöf til Kristjáns V Danakonungs sem tók við konungdómi sama ár. Ólíkt fyrri kortunum tveimur sýnir þetta kort athyglisverðar endurbætur á uppdrætti suður- og austurstrandlengjunnar; staðanöfnum fjölgar í rúmlega 575; þar eru merkilega nákvæmar skýringar á óvenjulegum atburðum, stórviðburðum, átrúnaði og forvitnilegum stöðum; og í fyrsta skipti er vegurinn yfir Sprengisand sýndur á korti. Þarna hefur Þórður líklega haft aðgang að miklu nákvæmari gögnum en þegar hann gerði fyrstu tvö kortin. Að öllum líkindum var þetta kort gert á Íslandi á þeim stutta tíma sem Þórður dvaldist þar eftir heimkomu sína vorið 1670 og þar til hann hélt utan til Kaupmannahafnar vorið 1671 þar sem hann var vígður Skálholtsbiskup.
Það er dapurlegt að hugsa til örlaga þessara korta sem höfnuðu að lokum í hinni konunglegu skjalageymslu í Danmörku gleymd og grafin og einskis metin. Það var einungis síðasta kortið sem kom að einhverjum notum þegar Árni Magnússon fékk það lánað árið 1702 í eina af ferðum sínum til Íslands og lét af einhverjum ástæðum hjá líða að skila því í réttar hendur.
Glæsilegasta afrek Þórðar Þorlákssonar í kortagerð var án efa síðasta kort hans af Íslandi. Ef það hefði ekki hafnað í skjalageymslu hefði það bætt við þá þekkingu sem menn höfðu á Íslandi og gert nafn Þórðar ódauðlegt.

Mark Cohagen


Eigandi birtingarréttar fyrir NKS 1088b fol (1668) er Det Kongelige Bibliotek í Kaupmannahöfn. Eigandi sama réttar fyrir AM 379b fol (1670) er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Kortin eru birt hér með góðfúslegu leyfi þeirra.

Nánar

Höfundur: Þórður Þorláksson
Útgáfuland: Ísland
Útgáfuár: 1668-1670

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1668
Stærð: 34,2×48,4 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1668
Stærð: 33,8×49,7 sm
Útgáfa 3
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1670
Stærð: 96,5×68,7 sm