Nyt Carte over Island

Þegar Niels Horrebow hafði lokið athugunum sínum á Íslandi árið 1751 var ákveðið að senda þá Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson í rannsóknarleiðangur til Íslands. Þeir dvöldust á landinu í sex sumur eða til hausts 1757 en þá sigldu þeir til Kaupmannahafnar til þess að vinna úr efnivið þeim sem safnast hafði. Bjarni var skipaður landlæknir og hvarf frá verkinu. Eggert drukknaði árið 1768 og því varð ljóst að aðrir urðu að sjá um útgáfu ferðabókarinnar sem þeir höfðu áætlað. Til verksins völdust Jón Eiríksson og Gerhard Schøning og árið 1772 kom Ferðabók Eggerts og Bjarna út. Henni fylgdi uppdráttur af Íslandi sem Schøning tekur fram í formála að sé byggður á Homanns-kortinu frá 1761 sem aftur á móti var útgáfa af korti Knoffs frá árinu 1734. Schøning segir að Jón hafi unnið einn að gerð kortsins fyrsta sprettinn en hann síðan tekið við og lokið verkinu. Fundist hafa tveir handdregnir uppdrættir að kortinu og er líklegt að Schøning sé höfundur þeirra þó að íslenskir menn hafi rétt honum hjálparhönd.
Þegar litið er á kortið í Ferðabókinni vekur það ef til vill athygli hve höfundar þess hafa litlu við að bæta. Virðist sem þeir hafi lítið notfært sér þann land- og staðfræðilega fróðleik sem Eggert og Bjarni höfðu safnað saman. Það eru helst örnefni Ferðabókarinnar sem komast til skila. Á kortinu kemur í fyrsta skipti fyrir heildarheiti á Vatnajökli og er hann kallaður Klofajökull. Kortið birtist lítið breytt í þýskri (1774-1775) og franskri (1802) útgáfu bókarinnar en talsvert afbakað í enskum útdrætti hennar (1805).
Næstu 50-70 árin sóttu flest vandaðri kort, sem gerð voru af Íslandi, undirstöðu sína að meira eða minna leyti til Ferðabókarkortsins. Stundum er erfitt að skera úr því hvort fyrirmyndin er Ferðabókarkortið eða hinar eldri gerðir Knoff-kortsins, Horrebows- og Homannskortið.

Nánar

Höfundur: Jón Eiríksson/Gerhard Schøning
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1772

Tungumál: Danska
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1772
Stærð: 44,4×56,6 sm