Delineatio Gronlandiæ Gudbrandi Torlacii Episcopi Holensis. Anno 1606

Undir lok 16. aldar og á þeirri 17. gerðu nokkrir Íslendingar kort af norðanverðu Atlantshafi og löndunum í kring. Þeir freistuðu þess að samræma fornar íslenskar frásagnir um landaskipan á þessum slóðum við kort þau er þá voru í mestu gengi eða menn höfðu við höndina. Kortin voru í það smáum mælikvarða að erfitt var að gera Íslandi viðhlítandi skil enda var gerð þess í rauninni aukaatriði. Fyrir kortagerðarmönnunum vakti að gera grein fyrir siglingum Íslendinga vestur um haf til Grænlands og Ameríku. Gerð þeirra flestra stóð sennilega í sambandi við fyrirætlanir Danakonunga um að ná að nýju tangarhaldi á Grænlandi. Kort þessi eru í rauninni frekar hluti af kortasögu Grænlands en Íslands.
Af öllum kortunum eru til nokkrar mismunandi eftirmyndir en tvö þeirra eru ekki lengur til í frumgerð. Kort Guðbrands er varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en þetta er eftirmynd, talsvert breytt, frá 1706 úr Gronlandia antiqva eftir Þormóð Torfason. Frumgerð kortsins er einföld að allri gerð og hefur varla verið nema riss. Eins og vænta mátti svipar lögun Íslands á henni til korta þeirra er Abraham Ortelius (1590) og Gerhard Mercator (1595) gerðu eftir Íslandskorti biskups. En á eftirgerðinni úr bók Þormóðar kemst Íslandsgerð Guðbrands af einhverjum ástæðum ekki til skila og landið verður frekar ólögulegt. Á Íslandi eru sex örnefni en kortið er markað bókstöfunum A til O sem vísa til fylgitexta.

Nánar

Höfundur: Guðbrandur Þorláksson
Útgáfuland: Danmörk
Útgáfuár: 1706

Útgáfa 1
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1706
Stærð: 17,2×17,4 sm
Útgáfa 2
Útgáfustaður: Kaupmannahöfn
Útgáfuár: 1706
Stærð: 17,2×17,4 sm